
Íslenskt — Láttu það ganga
Árangur og mælingar
Awards and acknowledgements
Fleiri leggja áherslu á að versla innanlands
Markmiðið var 15% aukning, sem þótti ríflegt þar sem jákvæðni var þá þegar allmikil. Herferðin fór því töluvert fram úr settum markmiðum.
Þegar teknar eru saman tölur fyrir þá sem töldu að herferðin hefði ekki bara haft áhrif á þá sjálfa heldur líka á annað fólk svara 33% þátttakenda því til að herferðin hafi haft áhrif á kauphegðun.
Skv. Hagstofu telur vinnandi fólk á Íslandi rúmlega 208 þúsund manns. Því má ætla að herferðin hafi haft bein áhrif á rúmlega 54 þúsund manns — og fjölskyldur þeirra.
Herferðin hefur því sannarlega haft þýðingarmikil áhrif á efnahagskerfið, eins og lagt var upp með — og þannig varið bæði störf og lífskjör fólks í landinu.

26% þátttakenda segja herferðina hafa haft þau áhrif að þeir hafi lagt aukna áherslu á að versla innanlands

Átakið vekur víðtæka eftirtekt
Mikill meirihluti þátttakenda, eða um 80%, kveðst hafa tekið eftir auglýsingaherferðinni Íslenskt — láttu það ganga. Það er 10% yfir settu markmiði og með því besta sem herferð á vegum Brandenburgar hefur náð.
Í aðalmarkhópi, markhópi A, er eftirtektin 85%. Þessi frábæri árangur staðfestir góða dreifingu og gríðarmikla eftirtekt, líkt og áhersla var lögð á frá upphafi.
Eftirtektin er jafnvel enn hærri í eldri hópunum en t.a.m. nefna 93% þátttakenda 50 ára og eldri að þeir hafi tekið eftir herferðinni. 79% þátttakenda á aldrinum 30-49 ára sögðust hafa tekið eftir auglýsingaherferðinni. Þetta sýnir að átakið hefur náð afar góðri dreifingu og vakið mikla eftirtekt í þessum aldurshópum.
Út frá birtingaplani var dekkun skilgreind sem 70% og tíðni 5. Herferðin skilar töluvert betri árangri sem segir okkur að útfærsla herferðarinnar hafi þótt eftirtektarverð.

Hefur þú tekið eftir auglýsingaherferðinni „Íslenskt – láttu það ganga“ á síðastliðnum mánuðum?

Mikilvægt að styðja íslenska verslun
Þátttakendur voru spurðir hvað fengi þá til að eiga viðskipti við innlenda aðila fremur en erlenda. Í fyrri könnuninni sögðu 37% þátttakenda að helsta ástæðan væri mikilvægi þess að styðja innlenda verslun. Í seinni könnuninni var þetta hlutfall 49%. Þetta endurspeglar rúmlega 32% aukningu í þessum hópi, en markmiðið var um 20%. Þessi mikla aukning er til marks um stórbættan stuðning við innlenda framleiðslu, verslun og þjónustu, og töluvert fram úr settu markmiði.
Í fyrri könnunum höfum við séð að verðþátturinn er oft nefndur sem ástæða fyrir því að fólk verslar erlendis. Þó svo að ekki hafi verið sett nein markmið um að minnka áhrif verðs við val um kaup á vörum og/eða þjónustu á Íslandi virðist herferðin hafa styrkt ímynd íslenskrar vöru og verslunar þannig að verðþátturinn er ekki eins mikilvægur. Sá þáttur lækkar um 19%.

Hvað, ef eitthvað, fær þig til að kaupa vöru og þjónustu hjá innlendum aðilum frekar en erlendum?

Jákvæðara viðhorf
Niðurstöður rannsóknanna staðfesta jákvætt viðhorf landsmanna gagnvart innlendri verslun. Enn fremur sýna þær að viðhorfið hefur styrkst töluvert frá fyrstu mælingum, en í seinni könnuninni sögðust 38% þátttakenda vera mjög jákvæðir andstætt 32% í fyrri könnun. Þetta samsvarar tæplega 19% aukningu, sem endurspeglar vaxandi jákvæðni í garð innlendrar verslunar, vöru og þjónustuaðila eftir að átakið hófst.
Yfirgnæfandi meirihluti allra þátttakenda, eða 78%, eru frekar eða mjög jákvæðir gagnvart innlendum þjónustuaðilum. Ímyndin er ekki fyrirstaða sem bendir til að vaxtartækifæri innlendrar verslunar séu enn umtalsverð.

Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ert þú almennt gagnvart innlendum verslunum?

Almannatengsl
Mikil áhersla var lögð á að nýta almannatengsl og fá jákvæða umfjöllun um átakið. Unnið var með öllum helstu miðlum í að kynna átakið áður en farið var af stað og finna samstarfsfleti. Einnig var skipaður stýrihópur fyrir verkefnið og lögð áhersla á að nýta kraft og sambönd hagsmunaaðila sem stóðu að átakinu og þeirra eigin miðla. Yfir 30 greinar birtust um átakið, íslenska framleiðendur, íslenskar vörur og viðtöl við verslunareigendur og þjónustuaðila. Umfjöllun í sjónvarpi var 1,39 klst. og í útvarpi 49 mín. Áætlað virði áunninnar umfjöllunar var reiknað 5,6 milljónir króna.

Áunnin umfjöllun (Earned Media) 5.640.000 ISK

Samantekt
Niðurstöður könnunarinnar sýna að herferðin hefur haft mikil áhrif, en 26% þátttakenda segja herferðina hafa orðið til þess að þeir hafi lagt aukna áherslu á að versla innanlands. Því má ætla að herferðin hafi haft bein áhrif á rúmlega 54 þúsund manns og fjölskyldur þeirra. Herferðin hefur sannarlega haft þýðingarmikil áhrif á efnahagskerfið, eins og lagt var upp með, og þannig varið störf og lífskjör fólks í landinu.
Auk þess er ljóst að átakið hefur vakið mikla og víðtæka eftirtekt, töluvert umfram markmið um 70%. Í markhópi A, sem er verðmætasti hópurinn, er eftirtektin 85%.
Íslensk verslun blómstrar eins og fram kemur í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar um þróun verslunar árið 2020. Fyrir árið 2020 mælist í heildina 11% vöxtur á milli ára en inni í þeim tölum er innlend og erlend kortavelta. Samanlögð verslun óx um 50 milljarða króna á milli ára, þrátt fyrir 60% samdrátt í verslun erlendra ferðamanna. Vefverslun mældist 7% af innlendri verslun og óx um 152% á milli ára.
Ástandið vegna heimsfaraldursins hefur vissulega mikið að segja hvað varðar breyttar kaupvenjur Íslendinga. Engu að síður styðja þessar tölur árangur herferðarinnar, sem var einmitt í hámarki um það leyti sem stærstu verslunartímabilin stóðu yfir.
Þessar tölur bera vitni um þann mikla og góða árangur sem átakið hefur nú þegar skilað. Herferðinni er hvergi nærri lokið og mun keyra af fullum krafti út árið 2021.
